Tuesday, September 12, 2006

Vatns- og hitaveita Kópavogs



Eftir að ég vann í síldinni fyrir austan þá réð ég mig til Kópavogsbæjar og hafði með að gera Vatnsveituna og fjarhitunarkerfi fyrir tvö hverfi. Síðan þegar Hitaveita Reykjavíkur keypti fjarhitunarkerfin af Kópavogsbæ, þá réð ég mig til Hitaveitu Reykjavíkur og var meðal annars í eftirlitsstörfum hjá fyrirtækinu. Við þetta var ég í nokkur ár. Það var sett upp kyndistöð í Kópavogi, við Digranesveg og ég passaði hana. Það var kinnt með einum katli, heilt hverfi í Kópavogi (suðurhlíðarnar – Hrauntungan). Síðan var settur upp ketill í Arnarnesi og ég var fenginn til að hafa eftirlit með honum líka. Kristján sonur okkar lærði pípulagnir og við unnum oft saman.

Myndin er tekin í apríl árið 1963. Frá vinstri eru: Hanna Maggý með Auði, Binna með dúkkuna Valda, Kristján og Veiga heldur á Ölfu í skýrnarkjól sem Hanna saumaði í húsmæðraskóla.

Til Reykjavíkur árið 1960.

Við fluttum í burtu úr Hólminum árið 1960 og ég fór að vinna í Vélsmiðjunni Héðni og var þar einn vetur. Ég vann þar á verkstæðinu og var vélvirki þar. Ég þekkti Vilhjálm Guðmundsson, verksmiðjustjóra og framkvæmdastjóra á Siglufirði. Hann var yfir öllum Síldarverksmiðjunum þar og var búinn að segja að ef ég vildi koma aftur Norður þá skyldi ég tala við sig. Ég hringdi í hann því nú væri ég laus og vildi hætta í Héðni og vildi komast í almennilega vinnu. Um þetta leyti bjuggum við í Víðikvammi 14 í Kópavogi þar sem við leigðum neðri hæð og kjallara. Vilhjálmur bauð mér að koma á Reyðarfjörð í Síldarverksmiðjuna sem var verið að byggja. Ég tók því og fór á Reyðarfjörð með alla fjölskylduna sumarið 1961. Við vorum þarna á sumrin og höfðum hús á Reyðarfirði sem Síldarverksmiðjurnar áttu. Við höfðum það mjög gott. Þarna vorum við í 5 ár alltaf á sumrin. Þeir sögðu mér hjá Verksmiðjunum að annað hvort yrði ég að flytja Austur eða að gefa eftir starfið. Veiga vildi ekki flytja Austur og þess vegna lét ég starfið eftir. Árið 1962 fæddist yngsta dóttir okkar, Alfa.

Ég vann alltaf mikla yfirvinnu og fékk ekkert borgað fyrir það. Um haustið þegar ég kem Suður og er að hætta þá fer ég á skrifstofu til Verksmiðjanna til að gera upp. Þá var Veiga búin að taka út peninga á skrifstofunni, 50.000 mikil upphæð og við fengum þessa upphæð fyrir mína eftirvinnu. Þeir gerðu mjög vel við okkur hjá Síldarverksmiðjunum, Sigurður Jónsson sem var framkvæmdastjóri í þá daga lifir enn og er orðinn nítíuogþriggjaára.

Myndin hér að ofan er af okkur Veigu þegar við fengum afhenta teikninguna af Reynihvammi 15.

Svo fórum við í Hólminn

Myndin er af okkur Veigu 1959 eða 1960. Einbýlishúsið sem við byggðum í Stykkishólmi er í baksýn.

Ég vann í Verksmiðjunum á Siglufirði þangað til Sigurður Ágústsson í Stykkishólmi skrifaði mér bréf og bað mig um að koma og starfa hjá sér við verksmiðjuna í Stykkishólmi, þetta var Síldar- og fiskimjölsverksmiðja Sigurðar Ágústssonar. Hann lofaði mér gulli og grænum skógum ef ég kæmi. Við byggðum stórt og fallegt hús í Hólminum og bjuggum þar í 12 ár. Ég var í lúðrasveitinni og spilaði á saxófón og spilaði líka á böllum um helgar og úti um allar sveitir. Kristján sonur okkar fæddist í Stykkishólmi árið 1950, Brynhildur árið 1955 og Auður árið 1959. Veiga var orðinn mjög þreytt á spiliríinu svo ég seldi fóninn og trommusettið og hætti að spila. Og spilaði ekkert í 50 ár! Rannveig vildi fara Suður til Reykjavíkur og við gerðum það.

Monday, September 11, 2006

SR-46


Á Siglufirði voru fimm síldarverksmiðjur og ég vann í þeirri stærstu. Ein hét Rauðka, önnur Grána og svo var það Doktor Pauls verksmiðja (þjóðverji átti verksmiðjuna). Og svo stóra verksmiðjan, SR-46, áður var ég í verksmiðju sem hét SR-N (sú nýjasta).

Við Jón Einarsson vorum þeir einu á Siglufirði sem höfðu vélstjóraréttindi. Þeir sem voru vélstjórar á bátum höfðu frekar takmörkuð réttindi. Ég fékk vinnuna hjá Síldarverksmiðjunum og varð vélstjóri og verksmiðjustjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, í stærstu síldarverksmiðju landsins og nýjustu. Þetta var flott djobb, um 20 menn voru á vakt og ég var verkstjóri (vélstjóri). Mitt verksvið var að sjá um allt vinnsluferlið í síldarvinnslunni.

Á veturna þá var lítið um að vera í Verksmiðjunum (SR-46), um það bil 6-7 menn unnu dagvinnu. Og við sáum um viðhald vélanna en svo byrjaði vertíðin þegar síldin kom á sumrin. Síldarvinnslan gekk þannig fyrir sig að á veturnar var unnið við viðhald vélanna, en á sumrin þá fór allt í gang þegar síldin kom. Þá fylltist allt af fólki í Verksmiðjunum. Ýmislegt var að gera í heilli síldarverksmiðju þar sem um 40 manns unnu. Óhemju mikið var að gera, pakka mjöli, setja mjöl í poka, lýsið var unnið í skilvindum og fór út í lýsistanka.

Ferlið var þannig að síldin kom inn í Verksmiðjurnar og fór í sjóðarann (suðukar) og úr sjóðaranum ofan í pressurnar og þar varð þetta að fastri köku. Þaðan dettur hráefnið ofan í þurrkarann og hann snýst og snýst og þetta veltist svona í þurrkaranum þangað til þetta er orðið hæfilega þurrt og fór þá í mjölpoka. Mjölið var selt í skeppnufóður og lýsið var selt til útlanda og fór í lýsisskip.

Árið 1946, nánar tiltekið þann 6. desember fæddist Guðbjörg dóttir okkar.
Við keyptum hæð á Hólavegi 25, neðri hæðina hjá Hjörleifi Magnússyni sem giftur var Elínóru systur minni. Hinrik Thorarensen aðstoðaði mig við kaupin með því að skrifa uppá lántöku fyrir hæðinni. Þetta var neðri hæð, ekki mjög stór en það fór vel um okkur Veigu og Hönnu og Guggu. Veiga var húsmóðir á veturna og vann í sídlinni á sumrin.


Í Vélskólann haustið 1945

Arið 1942 vann ég í Verksmiðjunum eins og vant var þangað til haustið 1945 þá fór ég suður aftur og þá fór ég í Vélskólann. Það var allur veturinn, 7 mánuðir. Ég lærði og lærði og allar bækurnar voru á dönsku. (Búinn að gefa Valgeiri barnabarni mínu bækurnar). Svanlaug Thorarensen hjálpaði mér með dönskuna. Síðan fór ég Norður og sótti um starf sem vélstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Við sóttum um tveir, ég og Jón Einarsson, vinur minn. En ég var búinn að tala við Þórodd Guðmundsson sem var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og bað hann um að mæla með mér. Hann sagðist skyldi gera það. Jón Einarsson fór líka til hans, en þá var Þóroddur búin að lofa að mæla með mér. En Jón Einarsson fékk vinnu í Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og flutti þangað með öll börnin 12 og ól þau upp þar.

Monday, September 04, 2006

Ísfirðingabraggi og Vallas

Frá vinstri: Kristján Þorkelsson, Jóhanna Maggý og Rannveig Kristjánsdóttir

Árið 1940 þegar ég var 23 ára hitti ég konuna mína, Rannveigu Kristjánsdóttur. Hún var í síldinni á Siglufirði með mömmu sinni, Guðbjörgu Lovísu Kristjánsdóttur, og bjuggu þær í Ísfirðingabragganum. Þær voru síldarstúlkur og unnu á síldarplaninu. Ég kynntist Rannveigu upphaflega á kaffihúsi. Ég var að spila á trommurnar og hafði borð fyrir framan þar sem hljómsveitin var. Þar gat ég keypt Vallas (appelsín) á borðið og hún kom og settist og fékk sér drykk. Hún skemmti sér þarna um kvöldið og við fórum út að ganga á eftir. Við hittumst oft eftir þetta um sumarið og það þróuðust með okkur nánari kynni. Síðan varð Rannveig ófrísk og vissi það reyndar ekki fyrr en hún var komin heim til sín á Ísafjörð. Hún var búin að vera í vist hjá góðu fólki á Siglufirði, Ólafi Ólsen og Léna og hafði samband við þau og spurði hvort hún mætti ekki koma og vera hjá henni um veturinn kauplaust. Rannveig sagði Lénu hvernig komið var. Það var auðsótt mál. Hún var hjá henni um veturinn og svo fór að líða á og Rannveig þurfti peninga. Léna hafði samband við mig og ég lét Veigu hafa peninga svo hún gæti farið að sauma á barnið. Ég átti 500 krónur í banka, sem var töluverð upphæð, sumarhýran, og ég tók þetta út og lét hana hafa til að kaupa á barnið. Ég hafði herbergi úti í bæ, hjá Matta og Jenníu í Grundargötunni og Veiga kom þangað oft um veturinn. Síðan vorið 1941 fæddist elsta dóttir okkar, Jóhanna Maggý. Við bjuggum enn á Grundargötu og fengum síðan leigt hjá Sigrúnu á Þormóðsgötu. Við höfðum eitt herbergi og aðgang að eldhúsi. Þarna byrjuðum við að búa. Ég vann í verksmiðjunum og nóg var að gera. Sveinbjörn Kelmenzson og Margrét Sveinsdóttir kona hans voru vinafólk okkar. Sveinbjörn var vélstjóri á sumrin hjá Síldarverksmiðjunum og bauð mér að útvega mér vinnu með sér hjá Landssmiðjunni í Reykjavík. Húsnæði leigðum við af bróður Sveinbjörns sem var skipsstjóri og átti hús á Álftanesi, þetta var Skógtjörn. Þarna bjuggum við veturinn 1941-1942. Síðan keupti Sveinbjörn bíl, en hafði þó ekki bílpróf. Við höfðum það þannig að ég hafði ökukennararéttindi og “kenndi” Sveinbirni á bílinn og við ferðuðumst saman til og frá vinnu. Þannig var nú það ...

Og svo fór ég að spila ...

Síðan byrjaði ég að spila. Meðan ég passaði mótorinn í Siglufjarðarbíói þá hafði ég nægan tíma fyrir sjálfan mig. Í bíóhúsinu var bíókaffi með trommusetti og píanói. Það var mannmargt í bænum á Siglufirði um 10.000 manns á sumrin. Á Siglufirði var kaffihús, bíó með þremur sýningum á kvöldi og böll og skemmtanir tíðar. Það komu svo mikið af tónlistarmönnum til bæjarins, þar á meðal Sigfús Halldórsson, tónskáld, Höskuldur Ólafsson, píanóleikari, Karl Ó. Runólfsson, tónlistarmaður og fiðluleikarinn hann Þorvaldur Steingrímsson. Ég fór að tromma með þessum mönnum – þetta voru mjög flínkir menn og það var lærdómsríkt að fá að æfa sig með þeim. ,,Svona byrjaði ég nú að tromma og mér gekk það bara vel.” Myndin er af Nýja Bíói Siglufjarðar sem Hinrik Thorarensen átti.

Sá fyrir mér sjálfur



Þegar ég var 14 ára þá dó amma mín og ég fór að sjá fyrir mér sjálfur. Ég keypti mér hjól, vann í Félagsbakaríinu á Siglufirði sendill, en þar störfuðu bræður mínir fyrir þeir Hilmar (Himmi) og Albert. Þarna vann ég í nokkur ár, síðar fór ég að vinna hjá Hinrik Thorarensen og passaði hænsni fyrir hann. Við vorum tveir vinirnir sem pössuðum hæsnin fyrir Hinrik. Vinur minn hét Vernharður Baldvin og var kallaður Venni. Síðan lá leiðin í Nýja Bíó á Siglufirði. Ég passaði mótorinn (mótoristi) fyrir bíóið en hann var staðsettur í kjallaranum í bíóinu. Sýningarvélarnar voru með 110 volta spennu en rafmagnið frá bænum var 220 volt. Það þurfti því spennubreyti sem passaði fyrir bíómótorinn. Við vorum með mótor sem snéri dínómó sem var 110 volt. Þetta stóð í nokkur ár. Eitt sinn var ég orðinn leiður á lágum launum. Ég fékk 50 aura á tímann og var ekki sáttur við það og ákvað því að fara í verkfall. Ég stoppaði mótorinn á miðri sunnudagssýningu kl. 22.00 og heimtaði hærra kaup og fékk það. Ég hafði starfsheitið mótoristi og vann þarna frá 1926-1929 og var 12-14 ára.