Saturday, October 28, 2006

Trommuleikur



Þegar ég flutti á Boðahleinina, raðhús við Hrafnistu þá hafði ég ekki spilað á trommur í 50 ár. Ég veiktist árið 2000 og uppúr þeim veikindum fór ég að spila á trommur með Böðvari Magnússyni tónlistarstjóra á Hrafnistu. En ég hafði spilað á trommur frá unga aldri. Þegar ég varð áttatíu og fimm ára árið 2002 þá gáfu börnin mér trommusett. Þetta var gríðarlega fallegt og vandað sett sem heimilið (Hrafnista) keypti síðan af mér, en trommur höfðu alltaf verið þar í láni. Harmónikkufélagið kemur oft og leikur og þá glatt á hjalla. Þegar Alfa varð fertug árið 2002 þá lék ég í hljómsveit í afmælinu, Böðvar þandi nikkuna og það var góð stemning. Í dag þann 27. október vorum við til dæmis þrettán sem spiluðum fyrir gamla fólkið! “Það var nú meiri fjöldinn”

Veran á Hrafnistu

Við Veiga fluttum inn á Hrafnistu rétt fyrir jólin 2005. Við fengum íbúð í kjallaranum en það var víst gangurinn að menn flyttu fyrst í kjallarann á Hrafnistu er færu síðar upp á efri hæðir þegar þar losnaði húsnæði. Veiga var þá orðin mjög heilsulaus og meira og minna við rúmið. Heilsu hennar fór hrakandi með vorinu og hún dó þann 10. júlí sama ár. Þegar hún dó þá þurfti ég að flytja úr íbúiðnni í kjallara Hrafnistu og fór í einstaklingsíbúð á 5. hæð, mjög fína. “Hún hefur valið vel handa mér hún Anna Björg, já já. “ Hér er fallegt útsýni og barnabörnin og fjölskyldan hjálpuðu mér að koma mér fyrir. Nú fer ég nánast daglega í kirkjugarðinn og sit við leiðið. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í félagslífinu, nema ég spila á DAS böllunum einu sinni í viku, á föstudögum. Af hverju tek ég ekki þátt í félagslífinu? “Af því ég nenni því ekki, ég sit bara hér uppi."

Til Danmerkur í ágúst 2006.



Í ágúst fór ég með Bárði tengdasyni mínum til Kristjáns sonar míns og Ásu í Danmörku. Það hittist þannig á að Halldór dóttursonur minn og Sigga voru einnig að fara til Danmerkur með börnum sínum í sömu flugvél. Hvernig fannst mér ferðin? Þetta var bara mjög fín ferð. Við sátum úti í garði og sóluðum okkur og höfðum það bara huggulegt. Myndin er af Eydísi barnabarni mínu og börnunum hennar sem heita Emma og Friðrika. Eydís og Jesper (köllum hann stundum Kasper!) gerðu sér ferð til okkar í Billund og það var mjög ánægjulegt að hitta þau.

Saturday, October 21, 2006

Kolaportið og Kænan

Þetta var fallegur dagur. Við skruppum á Kænuna í Hafnarfirði og ætluðum að fá okkur kaffi og horfa á bátana, en allt var lokað þegar við komum að. Fórum síðan í Kolaportið og keyptum okkur bakkelsi, lax og svo auðvitað músík í bílinn. Kaupmaðurinn á horninu í Kolaportinu stendur sína plikt, nema hvað safnefnið hans er allt í messi og maður finnur ekki neitt. Þess vegna bara setur maður hendina einhvers staðar niður í geisladiskahauginn og veiðir upp einhvern disk. Oftar en ekki er þetta þrusu fín tónlist. Í dag keyptum við t.d. Merle Haggard og hækkuðum í botn á leiðinni heim. Sá gamli hafði það á orði að ég mætti ekkert vera að því að keyra bílinn, væri svo upptekin af músíkinni. Vonandi var þetta hressing fyrir pabba.

Tuesday, October 17, 2006

Fjölskyldulífið í Reynihvammi og Hitaveitan



Við byggðum okkur hús í Austurbæ Kópavogs, Reynihvamm 15 árið 1965. Húsið átti að vera tilbúið þegar við kæmum aftur frá Reyðarfirði. Húsið var byggt á einu sumri og ég fékk verktaka til að sjá um bygginguna. Þarna bjuggum við til ársins 1986.
Veiga vann í Kársnesskóla og var matráðskona þar og ég var eftirlitsmaður hjá Hitaveitunni. Ég var með aðstöðu í Dælustöðinni í Bolholti. Ég gerði við dælur, sláttuvélar og önnur tæki fyrir Hitaveituna. Við vorum nokkrir karlar þarna, Pétur, Kalli og Sverrir var verkstjóri. Þarna var stjórnstöð fyrir Bolholtshverfið.

Við Veiga höfðum það ágætt á þessum tíma, fórum í siglingar á vorin og ferðuðumst um. Ég er nú hræddur um það. Við fórum til Þýskalands, Ítalíu, Spánar, Garda vatnsins, Júgóslavíu og fleirri fallegra staða. Við höfðum það mjög ágætt.

Í fyrstu siglingunni, 1972 til Kanaríeyja þá keypti ég nýtískulega kvikmyndavél og sú vél sýnir margar gamlar minningar. Spólurnar er 8 mm og ég geymi þær allar. Ég keypti vélina en Veiga keypti sér handsaumaðan fagurbláan 12 manna kaffidúk sem hún gaf síðar Rannveigu barnabarni okkar.