Wednesday, November 28, 2007

Útför frá Kópavogskirkju


Jarðaför pabba var látlaus og falleg. Á meðan kirkjugestir komu sér fyrir lék Sigurður Flosason á saxófón lög frá liðinni öld. Í byrjun athafnarinnar blés hann fallega í saxófóninn í Litáníu Shuberts og tónarnir flutu létt og fallega í yfirrödd yfir orgelinu. Karlakórinn fóstbræður söng og einsöngvari var Diddú uppáhaldssöngkona pabba. Fjöldi fólks fylgdi honum síðasta spölinn og Sr. Örn Bárður Jónsson jarðsöng. Athöfnin var lífleg og í anda pabba. Kirkjugestir voru sérstaklega beðnir um að taka undir almennan sálmasöng. Söngurinn ómaði um alla kirkju í sálmunum "Hærra minn Guð til þín" og síðan í lokin í kvæði Jónasar Hallgrímssonar "Alt eins og blómstrið eina." Karlakórinn Fóstbræður söng lagið "Lindin tær" eftir Bjarka Árnason frá Siglufirði. Lagið var sérstaklega útsett af Steingrími Þórhallssyni organista í Neskirkju og var sérlega vel flutt. Í lokin hljómaði síðan lagið "Nú vagga sér bárur" eftir Sr. Bjarna Þorsteinsson. Ólafur Haukur vinur pabba frá Siglufirði "...minnist hans á leiksviði í Stykkishólmi þar sem hann söng tvísöng með prýðisgóðum raddmanni, Guðna Friðrikssyni. Þeir sungu lag séra Bjarna Þorsteinssonar, Nú vagga sér bárur, lag sem tjáir betur en nokkur orð lognværa kvöldblíðuna á siglfirsku sumri. " (Mbl., 6. desember 2007, bls. 34). Karlakórinn söng létt með í laginu og allt var þetta svo fallegt og líflegt. Erfidrykkja var haldin í Skútunni Hólshrauni og komu um 170 manns í kaffið. Við Auður fórum síðan aftur í garðinn eftir erfidrykkjuna og settum ljós á leiði pabba og mömmu. Nú eru þau bæði komin á sama stað og hvíla í Hafnarfjarðarkirkjugarði.