Monday, September 11, 2006

SR-46


Á Siglufirði voru fimm síldarverksmiðjur og ég vann í þeirri stærstu. Ein hét Rauðka, önnur Grána og svo var það Doktor Pauls verksmiðja (þjóðverji átti verksmiðjuna). Og svo stóra verksmiðjan, SR-46, áður var ég í verksmiðju sem hét SR-N (sú nýjasta).

Við Jón Einarsson vorum þeir einu á Siglufirði sem höfðu vélstjóraréttindi. Þeir sem voru vélstjórar á bátum höfðu frekar takmörkuð réttindi. Ég fékk vinnuna hjá Síldarverksmiðjunum og varð vélstjóri og verksmiðjustjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, í stærstu síldarverksmiðju landsins og nýjustu. Þetta var flott djobb, um 20 menn voru á vakt og ég var verkstjóri (vélstjóri). Mitt verksvið var að sjá um allt vinnsluferlið í síldarvinnslunni.

Á veturna þá var lítið um að vera í Verksmiðjunum (SR-46), um það bil 6-7 menn unnu dagvinnu. Og við sáum um viðhald vélanna en svo byrjaði vertíðin þegar síldin kom á sumrin. Síldarvinnslan gekk þannig fyrir sig að á veturnar var unnið við viðhald vélanna, en á sumrin þá fór allt í gang þegar síldin kom. Þá fylltist allt af fólki í Verksmiðjunum. Ýmislegt var að gera í heilli síldarverksmiðju þar sem um 40 manns unnu. Óhemju mikið var að gera, pakka mjöli, setja mjöl í poka, lýsið var unnið í skilvindum og fór út í lýsistanka.

Ferlið var þannig að síldin kom inn í Verksmiðjurnar og fór í sjóðarann (suðukar) og úr sjóðaranum ofan í pressurnar og þar varð þetta að fastri köku. Þaðan dettur hráefnið ofan í þurrkarann og hann snýst og snýst og þetta veltist svona í þurrkaranum þangað til þetta er orðið hæfilega þurrt og fór þá í mjölpoka. Mjölið var selt í skeppnufóður og lýsið var selt til útlanda og fór í lýsisskip.

Árið 1946, nánar tiltekið þann 6. desember fæddist Guðbjörg dóttir okkar.
Við keyptum hæð á Hólavegi 25, neðri hæðina hjá Hjörleifi Magnússyni sem giftur var Elínóru systur minni. Hinrik Thorarensen aðstoðaði mig við kaupin með því að skrifa uppá lántöku fyrir hæðinni. Þetta var neðri hæð, ekki mjög stór en það fór vel um okkur Veigu og Hönnu og Guggu. Veiga var húsmóðir á veturna og vann í sídlinni á sumrin.


Í Vélskólann haustið 1945

Arið 1942 vann ég í Verksmiðjunum eins og vant var þangað til haustið 1945 þá fór ég suður aftur og þá fór ég í Vélskólann. Það var allur veturinn, 7 mánuðir. Ég lærði og lærði og allar bækurnar voru á dönsku. (Búinn að gefa Valgeiri barnabarni mínu bækurnar). Svanlaug Thorarensen hjálpaði mér með dönskuna. Síðan fór ég Norður og sótti um starf sem vélstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Við sóttum um tveir, ég og Jón Einarsson, vinur minn. En ég var búinn að tala við Þórodd Guðmundsson sem var í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og bað hann um að mæla með mér. Hann sagðist skyldi gera það. Jón Einarsson fór líka til hans, en þá var Þóroddur búin að lofa að mæla með mér. En Jón Einarsson fékk vinnu í Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og flutti þangað með öll börnin 12 og ól þau upp þar.

3 Comments:

At 6:35 AM, Anonymous Anonymous said...

það er aldeilis afi! halltu áfram að blogga

 
At 1:46 PM, Anonymous Anonymous said...

Sæll frændi og innilega til hamingju með síðuna þína. Þetta er alveg frábært hjá þér og gaman að lesa þetta allt saman. En hæðin sem þú keyptir af pabba var það ekki bara á Hólavegi 25.

Bestu kveðjur og enn aftur til hamingju.

Þinn frændi
Þorkell Hjörleifsson

 
At 3:40 PM, Anonymous Anonymous said...

akureyri 25 september 2006. sæll frændi edda hjörleifsdóttir heiti ég og bý á akureyri mikið er gaman að skoða síðuna þína þú ert alveg frábær frændi .bestu kveðjur edda

 

Post a Comment

<< Home