Wednesday, November 28, 2007

Útför frá Kópavogskirkju


Jarðaför pabba var látlaus og falleg. Á meðan kirkjugestir komu sér fyrir lék Sigurður Flosason á saxófón lög frá liðinni öld. Í byrjun athafnarinnar blés hann fallega í saxófóninn í Litáníu Shuberts og tónarnir flutu létt og fallega í yfirrödd yfir orgelinu. Karlakórinn fóstbræður söng og einsöngvari var Diddú uppáhaldssöngkona pabba. Fjöldi fólks fylgdi honum síðasta spölinn og Sr. Örn Bárður Jónsson jarðsöng. Athöfnin var lífleg og í anda pabba. Kirkjugestir voru sérstaklega beðnir um að taka undir almennan sálmasöng. Söngurinn ómaði um alla kirkju í sálmunum "Hærra minn Guð til þín" og síðan í lokin í kvæði Jónasar Hallgrímssonar "Alt eins og blómstrið eina." Karlakórinn Fóstbræður söng lagið "Lindin tær" eftir Bjarka Árnason frá Siglufirði. Lagið var sérstaklega útsett af Steingrími Þórhallssyni organista í Neskirkju og var sérlega vel flutt. Í lokin hljómaði síðan lagið "Nú vagga sér bárur" eftir Sr. Bjarna Þorsteinsson. Ólafur Haukur vinur pabba frá Siglufirði "...minnist hans á leiksviði í Stykkishólmi þar sem hann söng tvísöng með prýðisgóðum raddmanni, Guðna Friðrikssyni. Þeir sungu lag séra Bjarna Þorsteinssonar, Nú vagga sér bárur, lag sem tjáir betur en nokkur orð lognværa kvöldblíðuna á siglfirsku sumri. " (Mbl., 6. desember 2007, bls. 34). Karlakórinn söng létt með í laginu og allt var þetta svo fallegt og líflegt. Erfidrykkja var haldin í Skútunni Hólshrauni og komu um 170 manns í kaffið. Við Auður fórum síðan aftur í garðinn eftir erfidrykkjuna og settum ljós á leiði pabba og mömmu. Nú eru þau bæði komin á sama stað og hvíla í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Saturday, June 30, 2007

Heill þér níræðumVið héldum upp á afmæli pabba föstudaginn 29. júní. Vorum með kaffi fyrir fjölskylduna og áttum góða stund. Sistkyni hans komu utan af landi og hann var mjög glaður að hitta þau. Sunna litla dóttir Auðar söng fallegt lag og gaf afa sínum í afmælisgjöf. Það komu tónlistarmenn á vegum Ólafs og Bjargar og flutu tónlist í tilefni dagsins. Sýndar voru gamlar myndir og nokkur minningabrot úr fortíðinni dregin fram í dagsljósið. Sigga og Albert úr Borgarnesi gáfu pabba afmælisvísur sem hér fara á eftir:
Alla leið í Borgarförð fréttin hefur flogið
Og fullyrt er á Hagstofu að engu sé þar logið
Lifir sæll á heiðursmaðurinn klári
Sem hefur sprækur lifað í svo sem níutíu árin
Á Siglufirði átti hann indæl æskusporin
Og eltist þar við kríuna í fjörunni á vorin
Síldarævintýrinu sælt var þar að kynnast
En síldarstelpuhópurinn tekinn er að þynnast.
Hann spilaði í hljómsveit og spáði líka í fljóðin
Þá speglaðist í tónunum innsta hjartans glóðin
Innilegan tangó og ekta vínarvalsa
Vínarkrus og skottís og rælinn oft með galsa.
Í síldarvinnslu verkstjórinn vakti oft um nætur
Að vélunum og tækjum hafði jafnan gætur
Er síldin hvarf og ævintýrið enda hafði tekið
í áttina suður á bóginn með fjölskldu var ekið.
Í Stykkishólmi átti hann ágætustu daga
Í íshúsi og fyrstum var altaf nóg að laga
Hann átti góða konu og allnokkuð af bornum
Og afabörnin hitti hann oft á vegi förnum
Megi hann í lífsbókina ljúfa kafla pára
Lifa sæll og glaður og verða hundrað ára
Frá litla bróður Alberti og eiginkonu Siggu
Innilegust heillaósk í korti þessu liggur

Monday, June 25, 2007

Pabbi veikur

Við verðum því miður að fella niður fyrirhugað stórafmæli vegna veikinda afmælibarnsins.

Með bestu kveðju:
Alfa Kristjánsdóttir.

Monday, April 16, 2007

Ferming Söru
Um helgina fór ég í fermingarveislu hjá Söru Sigmundsdóttur, langafabarni mínu. Veislan var haldin í Glersalnum í Salarhverfinu. Þarna voru örugglega um 120 manns, gríðarlega stór og mikil veisla. Rannveig stýrði veislunni af myndarbrag og mikið var fermingarstúlkan falleg. Hér að ofan er langömmubarn Eleónóru heitinnar systur minnar frá Siglufirði, undirritaður og Sara litla, en þær eru víst vinkonur stúlkurnar.

Thursday, December 28, 2006

Jólin 2006


Hélt jólin með fjölskyldunni. Fékk mörg falleg og innileg jólakort og þakka öllum sem sendu mér kveðjur um hátíðina.

Saturday, November 18, 2006

Haustfagnaður á HrafnistuÁ fimmtudagskvöldið var haustfagnaður á Hrafnistu. Alfa fór með mér og við áttum góða stund. Skemmtiatriðin voru fín og söngurinn með tenórunum var stórkostlegur. Við fengum flotta steik og eplaköku í eftirrétt og síðan var dansað á eftir. Við fengum okkur smá snúning við fína dansmúsík hjá Böðvari. Á myndinni er Anna Björg með mér á fagnaðinum. Það er mjög gott fólk hérna.

Saturday, October 28, 2006

TrommuleikurÞegar ég flutti á Boðahleinina, raðhús við Hrafnistu þá hafði ég ekki spilað á trommur í 50 ár. Ég veiktist árið 2000 og uppúr þeim veikindum fór ég að spila á trommur með Böðvari Magnússyni tónlistarstjóra á Hrafnistu. En ég hafði spilað á trommur frá unga aldri. Þegar ég varð áttatíu og fimm ára árið 2002 þá gáfu börnin mér trommusett. Þetta var gríðarlega fallegt og vandað sett sem heimilið (Hrafnista) keypti síðan af mér, en trommur höfðu alltaf verið þar í láni. Harmónikkufélagið kemur oft og leikur og þá glatt á hjalla. Þegar Alfa varð fertug árið 2002 þá lék ég í hljómsveit í afmælinu, Böðvar þandi nikkuna og það var góð stemning. Í dag þann 27. október vorum við til dæmis þrettán sem spiluðum fyrir gamla fólkið! “Það var nú meiri fjöldinn”

Veran á Hrafnistu

Við Veiga fluttum inn á Hrafnistu rétt fyrir jólin 2005. Við fengum íbúð í kjallaranum en það var víst gangurinn að menn flyttu fyrst í kjallarann á Hrafnistu er færu síðar upp á efri hæðir þegar þar losnaði húsnæði. Veiga var þá orðin mjög heilsulaus og meira og minna við rúmið. Heilsu hennar fór hrakandi með vorinu og hún dó þann 10. júlí sama ár. Þegar hún dó þá þurfti ég að flytja úr íbúiðnni í kjallara Hrafnistu og fór í einstaklingsíbúð á 5. hæð, mjög fína. “Hún hefur valið vel handa mér hún Anna Björg, já já. “ Hér er fallegt útsýni og barnabörnin og fjölskyldan hjálpuðu mér að koma mér fyrir. Nú fer ég nánast daglega í kirkjugarðinn og sit við leiðið. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í félagslífinu, nema ég spila á DAS böllunum einu sinni í viku, á föstudögum. Af hverju tek ég ekki þátt í félagslífinu? “Af því ég nenni því ekki, ég sit bara hér uppi."

Til Danmerkur í ágúst 2006.Í ágúst fór ég með Bárði tengdasyni mínum til Kristjáns sonar míns og Ásu í Danmörku. Það hittist þannig á að Halldór dóttursonur minn og Sigga voru einnig að fara til Danmerkur með börnum sínum í sömu flugvél. Hvernig fannst mér ferðin? Þetta var bara mjög fín ferð. Við sátum úti í garði og sóluðum okkur og höfðum það bara huggulegt. Myndin er af Eydísi barnabarni mínu og börnunum hennar sem heita Emma og Friðrika. Eydís og Jesper (köllum hann stundum Kasper!) gerðu sér ferð til okkar í Billund og það var mjög ánægjulegt að hitta þau.