Monday, September 04, 2006

Ísfirðingabraggi og Vallas

Frá vinstri: Kristján Þorkelsson, Jóhanna Maggý og Rannveig Kristjánsdóttir

Árið 1940 þegar ég var 23 ára hitti ég konuna mína, Rannveigu Kristjánsdóttur. Hún var í síldinni á Siglufirði með mömmu sinni, Guðbjörgu Lovísu Kristjánsdóttur, og bjuggu þær í Ísfirðingabragganum. Þær voru síldarstúlkur og unnu á síldarplaninu. Ég kynntist Rannveigu upphaflega á kaffihúsi. Ég var að spila á trommurnar og hafði borð fyrir framan þar sem hljómsveitin var. Þar gat ég keypt Vallas (appelsín) á borðið og hún kom og settist og fékk sér drykk. Hún skemmti sér þarna um kvöldið og við fórum út að ganga á eftir. Við hittumst oft eftir þetta um sumarið og það þróuðust með okkur nánari kynni. Síðan varð Rannveig ófrísk og vissi það reyndar ekki fyrr en hún var komin heim til sín á Ísafjörð. Hún var búin að vera í vist hjá góðu fólki á Siglufirði, Ólafi Ólsen og Léna og hafði samband við þau og spurði hvort hún mætti ekki koma og vera hjá henni um veturinn kauplaust. Rannveig sagði Lénu hvernig komið var. Það var auðsótt mál. Hún var hjá henni um veturinn og svo fór að líða á og Rannveig þurfti peninga. Léna hafði samband við mig og ég lét Veigu hafa peninga svo hún gæti farið að sauma á barnið. Ég átti 500 krónur í banka, sem var töluverð upphæð, sumarhýran, og ég tók þetta út og lét hana hafa til að kaupa á barnið. Ég hafði herbergi úti í bæ, hjá Matta og Jenníu í Grundargötunni og Veiga kom þangað oft um veturinn. Síðan vorið 1941 fæddist elsta dóttir okkar, Jóhanna Maggý. Við bjuggum enn á Grundargötu og fengum síðan leigt hjá Sigrúnu á Þormóðsgötu. Við höfðum eitt herbergi og aðgang að eldhúsi. Þarna byrjuðum við að búa. Ég vann í verksmiðjunum og nóg var að gera. Sveinbjörn Kelmenzson og Margrét Sveinsdóttir kona hans voru vinafólk okkar. Sveinbjörn var vélstjóri á sumrin hjá Síldarverksmiðjunum og bauð mér að útvega mér vinnu með sér hjá Landssmiðjunni í Reykjavík. Húsnæði leigðum við af bróður Sveinbjörns sem var skipsstjóri og átti hús á Álftanesi, þetta var Skógtjörn. Þarna bjuggum við veturinn 1941-1942. Síðan keupti Sveinbjörn bíl, en hafði þó ekki bílpróf. Við höfðum það þannig að ég hafði ökukennararéttindi og “kenndi” Sveinbirni á bílinn og við ferðuðumst saman til og frá vinnu. Þannig var nú það ...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home