Tuesday, September 12, 2006

Til Reykjavíkur árið 1960.

Við fluttum í burtu úr Hólminum árið 1960 og ég fór að vinna í Vélsmiðjunni Héðni og var þar einn vetur. Ég vann þar á verkstæðinu og var vélvirki þar. Ég þekkti Vilhjálm Guðmundsson, verksmiðjustjóra og framkvæmdastjóra á Siglufirði. Hann var yfir öllum Síldarverksmiðjunum þar og var búinn að segja að ef ég vildi koma aftur Norður þá skyldi ég tala við sig. Ég hringdi í hann því nú væri ég laus og vildi hætta í Héðni og vildi komast í almennilega vinnu. Um þetta leyti bjuggum við í Víðikvammi 14 í Kópavogi þar sem við leigðum neðri hæð og kjallara. Vilhjálmur bauð mér að koma á Reyðarfjörð í Síldarverksmiðjuna sem var verið að byggja. Ég tók því og fór á Reyðarfjörð með alla fjölskylduna sumarið 1961. Við vorum þarna á sumrin og höfðum hús á Reyðarfirði sem Síldarverksmiðjurnar áttu. Við höfðum það mjög gott. Þarna vorum við í 5 ár alltaf á sumrin. Þeir sögðu mér hjá Verksmiðjunum að annað hvort yrði ég að flytja Austur eða að gefa eftir starfið. Veiga vildi ekki flytja Austur og þess vegna lét ég starfið eftir. Árið 1962 fæddist yngsta dóttir okkar, Alfa.

Ég vann alltaf mikla yfirvinnu og fékk ekkert borgað fyrir það. Um haustið þegar ég kem Suður og er að hætta þá fer ég á skrifstofu til Verksmiðjanna til að gera upp. Þá var Veiga búin að taka út peninga á skrifstofunni, 50.000 mikil upphæð og við fengum þessa upphæð fyrir mína eftirvinnu. Þeir gerðu mjög vel við okkur hjá Síldarverksmiðjunum, Sigurður Jónsson sem var framkvæmdastjóri í þá daga lifir enn og er orðinn nítíuogþriggjaára.

Myndin hér að ofan er af okkur Veigu þegar við fengum afhenta teikninguna af Reynihvammi 15.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home