Tuesday, October 17, 2006

Fjölskyldulífið í Reynihvammi og Hitaveitan



Við byggðum okkur hús í Austurbæ Kópavogs, Reynihvamm 15 árið 1965. Húsið átti að vera tilbúið þegar við kæmum aftur frá Reyðarfirði. Húsið var byggt á einu sumri og ég fékk verktaka til að sjá um bygginguna. Þarna bjuggum við til ársins 1986.
Veiga vann í Kársnesskóla og var matráðskona þar og ég var eftirlitsmaður hjá Hitaveitunni. Ég var með aðstöðu í Dælustöðinni í Bolholti. Ég gerði við dælur, sláttuvélar og önnur tæki fyrir Hitaveituna. Við vorum nokkrir karlar þarna, Pétur, Kalli og Sverrir var verkstjóri. Þarna var stjórnstöð fyrir Bolholtshverfið.

Við Veiga höfðum það ágætt á þessum tíma, fórum í siglingar á vorin og ferðuðumst um. Ég er nú hræddur um það. Við fórum til Þýskalands, Ítalíu, Spánar, Garda vatnsins, Júgóslavíu og fleirri fallegra staða. Við höfðum það mjög ágætt.

Í fyrstu siglingunni, 1972 til Kanaríeyja þá keypti ég nýtískulega kvikmyndavél og sú vél sýnir margar gamlar minningar. Spólurnar er 8 mm og ég geymi þær allar. Ég keypti vélina en Veiga keypti sér handsaumaðan fagurbláan 12 manna kaffidúk sem hún gaf síðar Rannveigu barnabarni okkar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home